RC Olafsfjordur

Founded Tuesday, May 31, 1955
Club 9811 - District 1360 - Charter number Úr sögu Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar

Áður birt í "Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára"
Óskar Þór Sigurbjörnsson:

 

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður árið 1955. Stofnfélagar voru 18 talsins, og var fyrsti fundur haldinn á þáverandi hóteli bæjarins 17. apríl. Fullgildingarskjal klúbbsins er dagsett 31. maí, en fullgildingarhátíð var haldin í júlímánuði.

Sr. Ingólfur Þorvaldsson, þáverandi sóknarprestur á Ólafsfirði, beitti sér manna mest fyrir stofnun klúbbsins, en áhugamenn heima fyrir nutu forsjár félaga í Rótarýklúbbi Siglufjarðar, sérstaklega Péturs Björnssonar og Jóhanns Jóhannssonar, svo að einhverjir séu nefndir.

Fyrstu stjórn klúbbsins mynduðu þeir sr. Ingólfur Þorvaldsson forseti, Jóhann J. Kristjánsson héraðslæknir ritari, Guðmundur Jóhannsson bæjargjaldkeri gjaldkeri, Sigurður Guðjónsson bæjarfógeti stallari og Magnús Gamalíelsson útgerðarmaður varaforseti.

Allt frá stofnun hefur klúbburinn gegnt miklu hlutverki í menningar- og félagslífi í Ólafsfirði og gerir það enn. Verkefnin á hinum ýmsu þjónustusviðum rótarý eru mýmörg og verður ekki allt rakið hér. Sumarferðir fyrir aldraða og skemmtikvöld að vetri til hafa alla tíð verið fastir liðir, sem notið hafa mikilla vinsælda þakklátra þátttakenda. Félagar og konur þeirra hafa einnig efnt til skemmtiferða innanlands og utan, einkum fyrr á árum. Minnast menn þeirra ferða með mikilli ánægju. Klúbburinn hefur einnig á sviði samfélagsþjónustu sinnt verkefnum, sem tengjast börnum og unglingum, t. d. með verðlaunaveitingum til nemenda skólanna. Sú hefð hefur ríkt í klúbbnum að bjóða nemendum 8. bekkjar gagnfræðaskólans á fund í lok skólaárs og kynna þeim rótarýhreyfinguna og störf klúbbsins.

Ekki leikur vafi á, að þetta hefur átt þátt í að auka skilning almennings á rótarýstörfum og velvild í garð klúbbsins. R. Ó. heldur nú árlega skíðamót fyrir börn og unglinga, svonefnt Brynjólfsmót, og hefur átt þátt í að byggja upp skíðaaðstöðu í Ólafsfirði, einkum í byggingu varanlegrar skíðastökkbrautar í miðbænum.

Fjármögnun þessara verkefna og annarra á vegum klúbbsins fer þannig fram, að auk frjálsra framlaga hafa félagar tekið að sér verkefni, sem boðist hafa, svo sem þökulögn og ræktun, hreinsun og málun skipa og húsa. Þá er ekki óalgengt, að félagar fari til fiskiróðra, þegar afla þarf fjár.

Samskipti við nágrannaklúbba hafa ætíð verið veruleg. Ber þar hæst frá fyrri tíð árlegar sameiginlegar hátíðir klúbbanna á Ólafsfirði, Siglufirði og Sauðárkróki og síðar sameiginleg árleg mót klúbbanna á Akureyri, Ólafsfirði, Húsavík og Egilsstöðum, til skiptis á ýmsum stöðum. Gagnkvæmar heimsóknir R. Ó. og nágrannaklúbbanna á Siglufirði og Akureyri hafa einnig verið nokkrar.

Sl. haust voru kynnin endurnýjuð vestur á bóginn með sameiginlegum fundi á Sauðárkróki með þátttöku Siglufjarðarklúbbsins.

Samskipti við erlenda klúbba hafa aukist mjög í seinni tíð, og hafa ýmis verkefni á sviði alþjóðaþjónustu verið meðal stærstu verkefna klúbbsins. R. Ó. hefur átt þátttakendur í öllum námshópaskiptum, GSE-ferðum, á vegum íslenska umdæmisins hingað til til Bandaríkjanna og Ástralíu og tekið á móti öllum þeim erlendu hópum, sem hingað hafa komið í staðinn. Hefur þessi þáttur í starfinu haft mikið gildi fyrir félaga klúbbsins og hvatt þá til dáða á þessum vettvangi. Tekin hafa verið upp umfangsmikil nemendaskipti við umdæmi í Bandaríkjunum og einnig í Ástralíu, eftir að tengsl mynduðust við GSE-heimsóknir. Fyrst tók R. Ó. þátt í skiptum við miðvesturríki Bandaríkjanna árið 1977-78, Central States Rotary Youth Exchange. Ungur Ólafsfirðingur fór þá til ársdvalar í Chicago, Illinois, og skiptinerni þaðan kom í staðinn til ársdvalar í Ólafsfirði. Nú, á árinu 1984-85, mun R. Ó. aftur taka þátt í skiptum við sömu aðila í Michigan í Bandaríkjunum og Ontario í Kanada með sama fyrirkomulagi.

Fyrstu unglingaskiptin við Ástralíu áttu sér stað 1980-81, þegar ungur Ólafsfirðingur fór til ársdvalar í umdæmi 965 í N. S. W. og áströlsk stúlka dvaldi í ár í Ólafsfirði. Árið 1983-84 varð svo framhald á þessum skiptum, því að nú dveljast tveir Ólafsfirðingar í umdæmum 964 og 965 í N. S. W. og Queensland og áströlsk stúlka hefur dvalið Ólafsfirði síðan í janúar og annar ástralskur skiptinerni er væntanlegur síðar á árinu.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur einnig átt þátt í að senda stúdenta til námsdvalar erlendis á vegum R. F. og unglinga í styttri sumardvöl í boði erlendra umdæma. Öll þessi skipti hafa tekist sérlega vel hingað til og margir þeir sem komið hafa til dvalar hafa komið aftur í heimsókn síðar. Má til dæmis nefna, að síðan námshópaskiptin við Ástralíu fóru fram 1978, hafa um 20 manns frá Ástralíu heimsótt Ólafsfjörð. Fátt sannar betur gildi þeirrar starfsemi, sem þannig fer fram á vegum rótarý, en hin miklu vináttu tengsl, sem tekist hafa í kjölfar námsmannaskipta sem þessara.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur tvisvar lagt íslenska umdæminu til umdæmisstjóra. Lárus Jónsson var umdæmisstjóri árið 1967-68, og Kristinn G. Jóhannsson var umdæmisstjóri árið 1978-79.

Klúbburinn hélt umdæmis þing á Akureyri í lok stjórnarára þeirra beggja.

Segja má, að starfsemi klúbbsins hafi alla tíð verið öflug og aldrei komið veruleg lægð í starfsemi hans. Endurnýjun og fjölgun félaga hefur verið regluleg, mæting oftast mjög góð og aldursskipting félaga á breiðum grunni. Félagar hafa verið um 40 síðustu árin, og verður að telja það allgott í ekki stærra bæjarfélagi en Ólafsfjörður er. Ekki hefur þótt ástæða til að stofna Inner-Wheel klúbb á staðnum, þar sem allmörg virk félög kvenna eru fyrir, en konur rótarýfélaga hafa ætíð tekið mikinn þátt í starfinu með mönnum sínum við undirbúning árshátíða, umdæmis þinga og móttöku innlendra og erlendra gesta klúbbsins. Þá hefur sameiginlegum fundum, svonefndum "konufundum" sífellt farið fjölgandi.

Fundarform Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar hefur tekið á sig mjög fasta mynd, sem væntanlega líkist í flestu því sem gengur og gerist hjá öðrum klúbbum.

Félagar hittast á Hótel Ólafsfirði kl. 19 á fimmtudagskvöldum og sjá oftast sjálfir um alla dagskrárliði, þar sem aðfengnir ræðumenn eru ekki á hverju strái. Þó koma stöku sinnum gestir til að sjá um dagskrána, og er það kærkomin tilbreyting. Virkni félaga hefur orðið meiri fyrir bragðið og hefur aðild að klúbbnum og stjórnarseta orðið mörgum manninum hinn besti félagsmálaskóli.

Fastanefndirnar skipta með sér mánuðunum við umsjón dagskrár, en síðasti fundur mánaðarins er frjáls, og verða þá umræður oft líflegar um hin margvíslegustu málefni, allt frá kveðskap og íslensku máli til velferðarmála bæjarfélagsins og landsins í heild. Vill þá stundum hitna í kolunum, en þó öllum að skaðlausu, þegar upp er staðið. Af föstum dagskrárlið um rótarýfunda, sem sérstakir mega teljast, má nefna fréttabréf vikunnar, sem félagar skipta með sér að skrifa og hafa gert frá upphafi. Þar eru sagðar almennar fréttir af atburðum líðandi stundar í bæjarfélaginu og þjóðfélaginu, fréttir af veðri, færð, aflabrögðum o. fl. Einhver félaganna velur og flytur kvæði kvöldsins, og í lok hvers fundar syngja félagar rótarýsöng Rótarýklúbbs Olafsfjarðar, sem Hartmann Pálsson orti við lag sr. Ingólfs Þorvaldssonar, og með honum lýkur þessum pistli um Rótarýklúbb Olafsfjarðar.

Eldarnir brenna, elfur tímans renna. Ólgandi lífið hefur margt að bjóða. Einn lyftir bjargi, annar stýrir penna, en orðið var fyrsti hreyfimáttur þjóða. Höfundi lífsins helgum starfið góða.

 

Members

Active members 26
- Men 19
- Ladies 7
Paul Harris Fellow 2
Club guests 0
Honorary members 4
Other contacts 4

Address

Ólafsfirði
625 Ólafsfjörður
Iceland